Þraut


Fréttir

Drögum úr örorku vegna vefjagigtar með aukinni áherslu á rétt úrræði á réttum tíma

Fyrir stuttu fór ég yfir Fjárlagafrumvarp 2019 og þar á súluriti blasir við að á toppnum trjónir, að sjálfsögðu, fjármagn sem fer í öll heilbrigðis úrræði, í öðru sæti eru útgöld vegna málefna aldraðra og í 3ja sæti örorkugreiðslur í almenna tryggingakerfinu alls 192 milljarðar. Já bein útgöld ríkisins á ársgrundvelli eru 192 milljarðar vegna örorku.  Við vitum að þrátt fyrir ýmsar girðingar þá hefur öryrkjum verið að fjölga frá ári til árs. 

En er ekki hægt að sporna við þessari þróun?

Ég tel að svarið við spurningunni sé sem betur fer JÚ, það er ef stjórnvöld leggi meiri áherslu á  skimun og fyrirbyggjandi úrræði. Flestir sjúkdómar eiga nefninlega það sameiginlegt að það er erfiðara að ná bata og fyrirbyggja óvinnufærni ef að sjúkdómur fær að malla árum saman án aðgerða.

Vefjagigt er sjúkdómur sem er mjög algengur örorkuvaldur. Yfir 20% af konum sem eru á örorku eru með vefjagigtargreiningu. Þetta er svakalega hátt hlutfall fyrir einn sjúkdóm. En staðreyndirnar blasa við, vefjagigt er skaðlegur sjúkdómur og leiðir, í svo mörgum tilvikum, til óvinnufærni. Ein stór ástæða fyrir því er að heilbrigðiskerfið er ekki að bregðast rétt við þessum sjúkdómi. Einstaklingar með vefjagigt eru ekki að fá réttar úrlausnir fyrr en sjúkdómurinn er kominn á illvígt stig og hefur verið í þróun árum saman. Hjá Þraut ehf – miðstöð vefjagigtar og tengdra sjúkdóma greinast yfir 60% umsækjenda með vefjagigt á illvígu stigi við fyrstu komu  og í vaxandi mæli síðustu ár eru einstaklingarnir þá þegar komnir á örorku. Þeir eru komnir á örorku áður en að þeir fengu sérhæfða meðferð við sínum sjúkdómi. Ekki er það vegna þess að vefjagigtarsjúklingarnir hafi ekki leitað eftir aðstoð og þjónustu innan heilbrigðiskerfisins, rannsóknir sýna að þeir hafa flestir reynt ítrekað að fá lausnir á sínum vanda en ekki fengið fengið viðunandi meðferð.

Á 16 mánaða tímabili 2018-2019 komu í Þraut 58 einstaklingar með frekar nýlega örorku.  Gefum okkur nú að viðbætist 58 nýir öryrkjar vegna vefjagigtar ár hvert. Hvað skyldu þeir kosta  okkur? Lauslega áætlað eru það um 150 milljónir árið 2019, 450 milljónir á 2ja ára tímabili, 900 milljónir  á 3ja ára tímabili,  ... og yfir 8 milljarðar á 10 ára tímabili. Að auki bætist við ýmis annar kostnaður meðal annars aukinn heilbrigðiskostnaður. 

Fjármagn sem fer í sérhæfða greiningu og endurhæfingu fyrir fólk  með vefjagigt er ekki í neinum takt við þörfina og ótrúlega lítið ef borið er saman við kostnað þjóðfélagsins vegna afleiðinga sjúkdómsins. Hjá Þraut eru á biðlista yfir 600 manns á hverjum tíma og biðtíminn eftir greiningu um 2 ár.  Á sama tíma fjölgar öryrkum vegna vefjagigtar ár hvert. 

Til að stöðva þessa stöðugu fjölgun örorkuþega þá verður að fara að vinna meira að forvörnum. Forvarnir eru ein besta leiðin til að sporna við ýmsum sjúkdómum sem og kostnaði vegna þeirra.Tölur sem sýna þann árangur eru mjög sláandi.

Til baka