Þraut


Endurhæfing

Hvernig er hægt að komast í endurhæfngu hjá Þraut?

Byrjað er á að sækja um greiningu- og endurhæfingarmat hjá Þraut (heimilislæknir sendir inn umsókn). Þar er einstaklingurinn kortlagður og lagt mat á hvaða meðferðar er þörf og endurhæfing hjá Þraut er oft einn valkostur.

Biðtími eftir endurhæfingu frá því að greining- og mat fer fram getur verið frá nokkrum vikum upp í nokkra mánuði. Þann tíma á að nýta í undirbúning þannig að viðkomandi hafi tekið á lífsstílsþáttum og sé í stakk búinn til að stunda endurhæfingu.

Þraut býður upp á tvær endurhæfingarleiðir og ráðleggja sérfræðingar Þrautar um hvor leiðin sé líkleg til að skila þér bestum árangri miðað við niðurstöður úr greiningarviðtölunum. Endurhæfing hefst u.þ.b. einum til níu mánuðum eftir greiningarferlið.

Morgunþraut – 6 vikna prógam: Endurhæfingunni er skipt upp í fimm lotur þar sem fyrstu fjórar loturnar eru kenndar samfleytt á fimm vikum. Þá er 5.-6. vikna hlé áður en lokalotan hefst. Endurhæfingin fer fram fjóra daga vikunnar. Í hléi milli lotna er ætlast til að þú vinnir með þau markmið sem þú settir þér í endurhæfingunni.  Ef þú tekur þátt í 6. vikna endurhæfingu þá er ekki ætlast til að þú sért í vinnu á meðan endurhæfingu stendur en þú getur horfið til fyrri starfa í hléinu. Þú átt rétt á að vera sjúkraskrifuð/-aður á meðan endurhæfingu stendur. Fimm Morgunþrautarprógrömm fara fram árlega.

Síðdegisþraut – 6 mánaða prógram: endurhæfingin fer fram síðdegis einu sinni til tvisvar í viku yfir 6 mánaða tímabil og hentar vel samhliða vinnu, námi eða starfsendurhæfingu. Síðdegisþraut fer fram tvisvar sinnum á ári. Fyrri endurhæfing hefst um miðjan júní og stendur fram í miðjan desember. Seinni endurhæfing hefst um miðjan desember og lýkur í lok maí.

 

Endurhæfingarleiðir Þrautar byggja á fræðslufyrirlestrum, líkamsþjálfun undir handleiðslu sjúkraþjálfara, markmiðssetningu og slökun. Boðið er upp á fræðslufyrirlestur fyrir aðstandendur. Endurhæfingin fer fyrst og fremst fram í hóp en einnig hafa þátttakendur kost á einstaklingsviðtölum við sérfræðinga Þrautar. Frætt er um líkamlega og hugræna þætti svo sem líkamsstöðu og verkjakveikjur, verki, þreytu, streitu, svefn svo eitthvað sé nefnt.