Þraut


Fréttir

Alþjóðlegi gigtardagurinn 12. október

Alþjóðlegi gigtardagurinn er í dag 12. október.

Að því tilefni deilum við þessum góða pistli frá Þóru Magneu Magnúsdóttur Þrautarkonu grin

Í dag er Alþjóðlegi gigtardagurinn. Gigt hefur lífsförunautur minn í yfir 25 ár en ég greindist með fyrstu gigtina mína þegar ég var 25 ára og gigtarsjúkdóm númer tvö 27 ára. Á þeim tíma var ekki mikil umræða um ungt fólk og gigt og fékk ég gjarnan að heyra frá eldra fólki að ég gæti ekki verið með gigt ,,svona ung". Hið rétta er að meira segja börn geta greinst með gigt. Þetta er ekki bara heldri manna sjúkdómur heldur sjúkdómur (af ýmsu tagi þar sem margar tegundir af gigt eru til) sem leggst á alla aldurshópa; konur, karla og börn. Þetta er langvinnur og mjög oft erfiður sjúkdómur. 

Ég erfði gigtarsjúkdóm númer tvö líkt og ég erfði brún augu og svartar augabrúnir (hinn fylgdi með í kaupbæti). Í all mörg ár hef ég þurft að berjast fyrir mínu og það hefur sérstaklega birst í þeirri mynd að ég er kona með verki. Mér hefur mætt viðmót lækna (alls ekki allra svo það sé tekið fram) sem enginn ætti að sætta sig við og fengið spurningar af ýmsu tagi. Stærsta áskorunin hefur þó falist í mínum eigin fordómum. En við lærum svo lengi sem við lifum (flest að minnsta kosti) og nú hef ég ákveðið að panta hjólastól á flugvöllunum sem ég mun heimsækja í næstu og þar næstu viku. Þetta var mér erfið ákvörðun, fannst ég pínu sigruð. Mér hafði verið bent á þetta - bæði af sjúkraþjálfara og lækni en ekki síst af mínum nánustu (sem vilja mér allt hið besta). En þessa ákvörðun þurfti ég að taka sjálf. Eins og ég segi þá fannst mér um tíma að gigtin hefði sigrað og ég tapað. Skynsama Þóra sér þó að það er ekki rétt því við erum mörg sem þurfum að lifa með sjúkdómum og því fylgir líka ábyrgð - ábyrgð sem m.a. felst í því að nota hjólastól (eða önnur hjálpartæki) á flugvöllum og láta ekki sjúkdómsbyrðina taka af manni ferðagleðina sem og auka álag á ferðafélaga. Ég á erfitt með löng flug og stóra flugvelli. Og síðustu tvö ár hef ég í raun verið búin á því áður en fríin hófust. 

Nú ætla ég sem sagt að axla mína ábyrgð hvað þetta varðar. Ég er svo lánsöm í dag að fá góð lyf, eiga að frábæran gigtarlækni (sem hefur sinnt mér frá því ég var 25 ára), ,,eiga" að bestu sjúkraþjálfara í heimi (Erla og Herdís og svo auðvitað hún Sigrún sem hóf þetta ferðalag með mér þegar ég var 25 ára) og svo síðast en ekki síst á ég bestu fjölskylduna. Þannig að á Alþjóðadegi gigtarinnar opna ég mig með þetta - kannski öðrum til góðs (vona það) - og birti um leið hlekk af vef Gigtarfélagsins (þar sem finna má margar gagnlegar upplýsingar) þar sem gefin eru góð ráð þegar gigtveikt fólk ferðast með flugi.

http://www.gigt.is/ad-lifa-med-gigt/lif-og-heilsa/ferdalog/radleggingar-fyrir-ferdlog-med-flugi

Til baka