Þraut


Fréttir

Þraut 10 ára og baráttan fyrir velferð fóks með vefjagigt er rétt að byrja

Við áramót er gott að staldra við og horfa í baksýnisspegilinn , hvað hefur áunnist, hvað mætti betur fara og leggja af stað inn í nýja árið fullur bjartsýni með nýja drauma og nýjar áskoranir í farteskinu. Í ár 2018 eru 10 ár síðan Þraut ehf - miðstöð vefjagigtar og tengdra sjúkdóma var formlega stofnuð og fékk kennitölu sem endar á 08. Reyndar fékk Þraut ekki formlega samning við Sjúkratryggingar Íslands fyrr en næstum 3 árum síðar en í millitíðinni hafði Janus endurhæfing veitt Þraut brautargengi með því að gera fyrirtækinu kleift að fá greiðslur fyrir þverfaglega greiningar á fólki með vefjagigt. 

Það kostaði tár og svita að koma Þraut á koppinn. Þrautarteymið tók sér vikulega einn dag frí frá annarri vinnu í heil 3 ár, og þar fyrir utan var hver aukastund notuð í að fá einhverja til að taka þátt í þessu draumaverkefni að koma á fót sérhæfðu úrræði fyrir fólk með vefjagigt og tengda sjúkdóma. Það var reynt við marga og má þar nefna lífeyrissjóði, alþingismenn, Velferðarráð, Sjúkratryggingar Íslands, Virk, Janus endurhæfingu, sjúkraþjálfun Styrk. Á sama tíma vann Þrautarteymið að greiningarferlum, gerð fræðsluefnis og annarra meðferðarúrræða. Já, þetta var mikil Þrautarganga fyrstu árin sem að lokum skilaði okkur samningi við Sjúkratryggingar Íslands 1. febrúar 2011. Vert er að geta þess að það voru margir sem stóðu að baki Þraut sem að lokum skilaði þessum samningi sem var í sjálfu sér afrek á þessum tíma svo stuttu eftir hrun og langar mig þar að nefna Velferðarráð, Sjúkratryggingar Íslands, Janus endurhæfingu, en að auki komu þar að fjölmargir einstaklingar. 

Já, það var Þrautarganga að koma Þraut á koppinn og markmið Þrautar er að bæta Þrautir fólks með vefjagigt og það er mikil Þraut að ná því markmiði. Þannig að nafnið Þraut passar þessu fyrirtæki bara ljómandi vel. 

Þraut hefur verið í stöðugri þróun og stöðugt er leitast við að veita sem besta þjónustu fyrir sem flesta en betur má ef duga skal því að þörfin fyrir þjónustu Þrautar hefur reynst mun meiri en ætlað var í upphafi og eru nú yfir 600 manns á biðlista. Ár hvert komast allt að 230 manns í þverfaglega greiningu og um helmingur þess hóps fer í styttri eða lengri endurhæfingu hjá Þraut. Öll árin hefur starfsemin verið í höndum eins teymis sem er til lengri tíma séð mjög brothætt því engin varamaður er til staðar ef eitthvað kemur upp á. 

Nú leggjum við af stað inn í árið 2018 full bjartsýni um betri tíma fyrir Þraut og fyrir alla skjólstæðinga okkar. Trúum og treystum að ný stjórnvöld sjái hag sinn í að bæta þjónustu við þennan sjúklingahóp því heilsuhagfræðilegar rannsóknir sýna að það margborgar sig að þessi sjúklingahópur fái sérhæfða þjónustu. 

En hver eru næstu skref til úrbóta? 

* Að fækka á biðlistanum með það að markmiði að biðtími verði að hámarki 1 ár og minna en 3 mánuðir fyrir unga einstaklinga. 

* Að bæta við þjónustu fyrir fólk með vefjagigt á vægari stigum með forvarnargildi að leiðarljósi. 

* Að bæta við göngudeildarþjónustu og eftirfylgd fyrir fyrrum skjólstæðinga Þrautar sem þurfa á því að halda. 

* Að vinna að meðferðarúrræðum fyrir ungmenni með vefjagigt og tengda sjúkdóma. 

* Að tengja starfsemi Þrautar betur við heilsugæsluna og við Virk. 

* Að stækka teymi Þrautar sem er nauðsynlegur þáttur til að starfsemin haldi áfram að þroskast og dafna. 

Og síðast en ekki síðst þá þyrfti að safna saman ljósberum vefjagigtar sem bera hag þessa sjúklingahóps fyrir brjósti . 

Gleðilegt ár - fyrir hönd Þrautar Sigrún Baldursdóttir framkvæmdastjóri

Til baka